Rekstrarstjóri upplýsingatækni

Þjóðskjalasafn Íslands auglýsir laust til umsóknar nýtt starf rekstrarstjóra upplýsingatækni. Leitað er að drífandi einstaklingi í spennandi starf hjá öflugri menningar- og stjórnsýslustofnun sem varðveitir heimildir um sögu þjóðarinnar og leiðir skjalavörslu og skjalastjórn hins opinbera.
Um 50 manns starfa hjá Þjóðskjalasafni. Um þessar mundir standa yfir miklar breytingar í starfseminni og því um spennandi tækifæri að ræða fyrir kraftmikinn aðila. Nánari upplýsingar um starfsemina má finna á vefnum skjalasafn.is.
Rekstrarstjóri upplýsingatækni er hluti af öflugu teymi á skrifstofu rekstrar. Undir skrifstofuna falla fjármál, mannauðsmál, gæðamál, upplýsingatækni, upplýsingaöryggi, skjalamál, húsnæðismál og öryggismál.
Helstu verkefni og ábyrgð
- Rekstur á miðlurum og gagnagrunnum (kerfisstjórn)
- Rekstur útstöðva og annars notendabúnaðar
- Rekstur hugbúnaðarkerfa í samstarfi við fageiningar og birgja
- Eftirfylgni með uppfærslum á stýrikerfi og hugbúnaði frá þriðja aðila
- Uppsetning á vélbúnaði og hugbúnaði
- Tæknilegur stuðningur, notendaþjónusta og fræðsla fyrir starfsfólk
- Samskipti við birgja í upplýsingatækni
- Verkefnastýring verkefna í upplýsingatækni
- Vinna við stöðugar úrbætur á sviði upplýsingaöryggis
Hæfniskröfur
- Reynsla af rekstri kerfa til a.m.k. þriggja ára skilyrði
- Menntun á sviði tölvunarfræði, verkfræði, tæknifræði eða kerfisstjórnun mikill kostur
- Þekking á Windows og Windows Server stýrikerfum skilyrði
- Þekking á RedHat og/eða Debian ættuðum Linux stýrikerfum æskileg
- Þekking á gagnagrunnum (Microsoft SQL Server, Oracle, MySQL og/eða PostgreSQL) og rekstri þeirra er mikill kostur
- Þekking á rekstri netkerfa og þráðlauss aðgangsbúnaðar og þekking á uppbyggingu víð- og staðarnets er skilyrði
- Reynsla af öryggisvöktun (SIEM) og samstarfi við öryggisvöktunarsetur (SOC) er æskileg
- Reynsla af notkun á umsýsluhugbúnaði fyrir útstöðvar og miðlara er skilyrði
- Reynsla af stöðugum úrbótum á sviði upplýsingaöryggis skilyrði
- Reynsla af þjónustustörfum er mikill kostur
- Skipulagshæfni, frumkvæði í starfi og sjálfstæði í vinnubrögðum
- Mjög góð færni í mannlegum samskiptum
- Mjög góð íslensku- og enskukunnátta í ræðu og riti
Sækja um starf
Umsókn skal fylgja ítarleg náms- og starfsferilskrá og kynningarbréf á íslensku þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar ásamt rökstuðningi um færni viðkomandi til að gegna starfinu. Mat á hæfni umsækjenda byggist á innsendum gögnum og viðtölum við umsækjendur. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út. Tekið er mið af jafnréttisstefnu Þjóðskjalasafns Íslands við ráðningu í starfið.
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 20.10.2025